Karlakór Grafarvogs

Karlakór Grafarvogs var stofnaður 19. september 2011. Það var Íris Erlingsdóttir söngkennari við Söngskólann í Reykjavík sem fékk þá hugmynd að stofna karlakór kenndan við Grafarvogshverfi í Reykjavík. Íbúar hverfisins eru álíka margir og íbúar Akureyrar og fjöldans vegna væri trúlega grundvöllur fyrir að stofna karlakór kenndan við hverfið. Stofnfundurinn var haldinn í Grafarvogskirkju og mættu um 30 karlar á fundinn og var Íris kosinn fyrsti formaður kórsins, en lét af formennsku eftir fyrsta starfsárið.

Karlakór Grafarvogs hefur starfað óslitið síðan og jafnan haft aðstöðu til æfinga í Grafarvogskirkju og er stuðningur sóknarprests kirkjunnar við starf kórsins sem og annars starfsfólks kórnum mikilvægur. Kórinn heldur minnst tvenna tónleika opinberlega á ári, að vori og hausti, en syngur einnig við messur og aðrar kirkjulegar athafnir í Grafarvogskirkju þegar óskað er og kemur einnig fram og á söngskemmtunum eftir því sem tilefni er til. Karlakór Grafarvogs er félagi í SÍK – Sambandi íslenskra karlakóra – og tók þátt í Kötlumóti í Reykjanesbæ árið 2015. Einnig tók kórinn þátt í sjónvarpsseríunni Kórar Íslands sem sýnd var á Stöð 2 árið 2017.

Hjá Karlakór Grafarvogs er sönggleðin og léttleikinn í fyrirrúmi og leggur kórinn áherslu á lagaval af léttara taginu, þótt á efniskrám kórsins megi gjarnan finna klassísk karlakórslög, bæði íslensk og erlend.

Í Karlakór Grafarvogs eru nú 30 söngmenn. Stjórnandi kórsins frá stofnun er Íris Erlingsdóttir, meðleikari er Einar Bjartur Egilsson en einnig koma aðrir hljóðfæraleikarar jafnan fram á tónleikum kórsins.

Karlakór Grafarvogs á Facebook

 

Stjórn Karlakórs Grafarvogs

Ólafur E. Jóhannsson, formaður                olafur.johannsson@simnet.is

Ástvaldur Kristinsson, ritari                         astvaldur@islandia.is

Hallgrímur Gröndal, gjaldkeri                     halligron@gmail.com

Einar Eyjólfsson, meðstjórnandi                einarey@gmail.com

Kristján Sverrisson, meðstjórnandi          ksverrisson@hotmail.com

 

Íris Erlingsdóttir, kórstjóri                            irise@simnet.is

Einar Bjartur Egilsson, píanóleikari           einarbjartur@gmail.com