Lög Sambands íslenskra karlakóra

(Samþykkt á aðalfundi SÍK 28. maí 2005)

1.grein
Samband íslenskra karlakóra, skammstafað SÍK, er samband karlakóra , sem hafa opna félagsaðild og starfa innan landshlutasambandanna Heklu fyrir norðurhluta landsins og Kötlu fyrir suðurhluta landsins.

2.grein
Hlutverk sambandsins er að koma fram fyrir hönd landshlutasambandanna og aðildarkóra þeirra í sameiginlegum hagsmuna- og baráttumálum, semja um og innheimta greiðslur fyrir flutning og dreifingu karlakórasöngs í umboði kóranna og að efla framgang karlakórasöngs eftir mætti.

3.grein
Sambandið er aðili að Sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðenda, skammstafað SFH og Nordisk sangerforbund skammstafað NSF sem eru samtök karlakóra á norðurlöndunum.  Formaður sambandsins hefur rétt til setu á aðalfundum landshlutasambandanna með málfrelsi og tillögurétti og skal ákvæði um það vera í lögum þeirra.

4.grein
Aðalfundur Sambands íslenskra karlakóra fer með æðsta vald í málefnum samtakanna.  Aðalfund skal halda fyrir miðjan júnímánuð annað hvert ár (þegar ártal er oddatala).  Aðalfund skal boða bréflega til formanna kóranna og landshlutasambandanna með minnst mánaðar fyrirvara og geta dagskrár.
Á dagskrá aðalfundar skal m.a. vera:

  1. Skýrsla stjórnar og reikningar sambandsins fyrir undanfarin tvö ár.
  2. Skýrslur landshlutasambanda og nefnda.
  3. Breyting á lögum og reglugerðum.
  4. Kjör formanns, ritara, gjaldkera og tveggja varamanna í stjórn, tveggja skoðunarmanna reikninga og kjör eins fulltrúa í SFH og annars í NSF.
  5. Önnur mál.

Fundargerð aðalfundar skal lesin upp og borin undir atkvæði í lok fundar.
Stjórn sambandsins getur boðað til aukaaðalfundar ef brýna nauðsyn ber til með minnst hálfs mánaðar fyrirvara og ákveður hún dagskrá fundarins sem getið er í fundarboði.  Aðalfundur telst löglegur ef löglega er til hans boðað.

5.grein
Á aðalfundi eiga sæti einn fulltrúi hvers aðildarkórs landshlutasambandanna.  Kjörbréf undirritað af formanni viðkomandi kórs skal hafa borist stjórn sambandsins tveimur vikum fyrir fundinn.  Hver fulltrúi með kjörbréf hefur eitt atkvæði á aðalfundi og ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála nema  annars sé getið í lögum þessum.  Stjórn sambandsins og formenn landshlutasambandanna hafa rétt til setu á aðalfundinum með málfrelsi og tillögurétti.

6.grein.
Allir félagsmenn aðildarkóranna eru kjörgengir til stjórnar.  Aðeins einn félagsmaður úr hverjum kór getur verið í framboði hverju sinni.  Kjörtímabil stjórnar er tvö ár.  Formaður og ritari skulu koma frá öðru landshlutasambandinu en gjaldkeri frá hinu.  Formennska skal ganga milli landshluta á hverjum aðalfundi.
 
7. grein
Stjórnin fylgir eftir lögum og samþykktum sambandsins, og kemur fram fyrir það út á við. Stjórnin ákveður aðsetur samtakanna. Stjórnin skipar nefndir og ráð sem hún telur þörf á og setur reglur um störf þeirra. Reglur um söngmálaráð og úthlutun heiðursmerkja skulu samþykktar á aðalfundi. Formaður boðar stjórnarfundi. Einnig skal boða stjórnarfund ef tveir stjórnarmenn óska þess og skal hann haldinn innan 5 daga frá því að ósk um það er lögð fram.

8.grein
Reikningsár Sambans íslenskra karlakóra er frá 1.apríl til 31.mars ár hvert.  Endurskoðaðir reikningar tveggja ára skulu lagðir fram á aðalfundi. Reglur um ráðstöfun sameiginlegs fjár skulu samþykktar á aðalfundi.  Rekstur sambandsins skal greiddur af því fé sem það innheimtir í umboði kóranna áður en til úthlutunar kemur. Störf stjórnarmanna, nefnda og ráða eru ólaunuð. Rekstrarkostnaði sambandsins skal í hóf stillt.

9. grein
Sambandinu verður aðeins slitið hafi það verið samþykkt með 2/3 hlutum greiddra atkvæða á tveimur aðalfundum í röð. Bækur og skjöl þess skulu þá afhent Þjóðskjalasafni til varðveislu en aðrar eignir Menntamálaráðuneytinu til varðveislu og ávöxtunar þar til upp rís samband karlakóra með svipað eða sama markmið.

10.grein
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi sambandsins og þarf til þess að minnsta kosti 2/3 hluta greiddra atkvæða.  Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn sambandsins eigi síðar en 2 mánuðum fyrir aðalfund.