Sá gleðilegi atburður gerðist þann 1. maí 2008 hér á suðursvæði Vestfjarðakjálkans að stofnaður var karlakór á vestasta odda Evrópu, á Bjargtöngum við Látrabjarg. Kórinn fékk nafnið "Karlakórinn Vestri" og að formlegri athöfn lokinni á Bjargtöngum söng kórinn eitt lag.
Vestri, útgerðarfélag á Patreksfirði, bauð öllum viðstöddum til kaffisamsætis í Breiðuvík eftir stofnfundinn. Allir eru kórfélagar af suðursvæði Vestfjarðakjálkans og voru fimmtán skráðir stofnfélagar. Æfingar hafa verið haldnar einu sinni í viku að undanförnu. Það er von kórfélaga að fleiri bætist í hópinn.